Leikur í lífi Önnu B!
Þvílík hamingja, hjartað hamast ótt og títt og ég veit varla af því að það er liðinn mánuður síðan ég kom hingað út.
Sólin skín og það er um tuttugu stiga hiti daglega.
Ég eyddi fyrstu vikunum í leti og naut þess að vera með Nikitu, nýjasta fjölskyldu meðliminum hér syðra ásamt Myrsini, Ilíasi , pabba og co.
Við busluðum í sjónum, fórum á REM tónleika með 50.000 manns, drukkum vín eins og vatn og dönsuðum ótt við takt vínsguðsins Dionysis.
Svo hófst skólinn!
Fyrsta daginn var vígsla skólans, þá kom meðal annars eitt stykki alminnilegur grískur prestur ásamt svörtu klæðum sínum, með hvíta hárið sitt tekið aftur í tagl og reykelsi og alheimsblessaði skólann okkar með frammúrskarandi söngli á forngrísku.
Þegar það var afstaðið hófu kennarar og skólastjóri mál sitt og fóru með ljóð.
Því næst voru útskrifaðir nemendur síðasta árs.Ég fór síðan heim ilmandi með hreina sál.
Það eru tuttugu ólíkir kennarar sem kenna okkur leiklist, söng og tónlist, skylmingar, rétt málfar, ballet, nútíma dans, sögu leiklistar, tragóðiu, spuna, sviðsetningu, förðun og margt fleira..klukkan er rúmlega tvö að nóttu og ég get varla hugsað skýrt.
Kennararnir reykja flest allir í tíma, þó nokkrir hafa lært erlendis og enn aðrir eru frægar sjónvarpsstjörnur og leikstjórar.
Uppáhalds kennarinn minn hingað til er þó Dimitri Ívanoff! Hann er 65 ára fyrrum ballet stjarna og spilar með hinu liðinu. Hann er með gervihár sem stendur mis vel út úr derhúfunni sem hann er ávallt með á höfði sér og með glampandi hvítar gervitennur sem geisla er hann opnar munninn.
Dimitri hefur sett þessa líka fínu mynd frá fyrri helmingi síðustu aldar sviðna og svarthvíta fyrir ofan speglana sem prýða danssalinn þar sem hann sést svífandi í loftinu í nýþröngum sokkabuxum og með alvöru hár.
Hann fær mikið út úr því að spegla sig og blikkar okkur í speglinum þegar hann dansar kabarett.
Ballet kennarinn okkar er hin fima og fágaða Elena frá Úkraínu, hún er fínleg og fögur og dansar og skammar okkur af hörku og aga þess sem hefur dansað frá barnsaldri.
Herra Ritsos er um sjötugt og er bróður hins virta og fræga ljóðskálds Yiannis Ritsos, hann kennir okkur tragoðíu og hefur að bakki fjörutíu ára feril í leikhúsi. Hann sagðu okkur einnig frá því að hann væri með krabbamein í lungunum og ætti skammt ólifað.
Þar fór Anna B næstum að gráta. Í skólanum er ég kölluð Anna Lionaraki og er ég einstaka sinnum Anna Mpirta´.
Kennararnir eru allir einstakir og sterkir karakterar og allir vilja kenna okkur sínar eigin leiðir og vegi að velgengni.Þó svo allir reyndu að sannfæra okkur um að leiklist væri hræðilegt val og að fæst okkar myndum finna vinnu í framtíðinni.
Myrto Pipsini lærði í Bretlandi er lítil og ljóshærð og er fræg fyrir að hafa leikið í dramatískri sápuóperu í kringum ´90. Þar sem hún grét daglega í þrjú ár.
Við byrjum hennar tíma á að horfast í augu eða dansa í hljóði.
Phillipos Sofianos er einn af mjög virtum leikurum Grikkja og er hann magnaður!
Það má heyra saumnál detta í tímunum hjá honum, svo mikill er áhuginn og virðinginn og fimi hans í að beita röddinni. Þessi maður er einnig augnakonfekt og gleður okkur dömurnar með áru sinni.
Krakkarnir eru frábærir, við erum 25 stykki og á aldrinum 19 til 38 ára.
Þó erum við flest í kringum 25.
Við höldum iðulega partý og og kyssum öll hvort annað þegar við hittumst á báðar kinnar að grískum sið.
Það er mikið heimanám og ég les upphátt ein heima og úti í skógi til að bæta tjáningu og lesturinn yfirleitt. Mið dreymir grískt letur og ég get varla sofnað af spenningi og ofur hamingju. En þetta er erfitt og ég finn stundum fyrir vanmætti mínum þar sem orðaforði minn nær ekki yfir í forn grískuna sem er stundum tekin fyrir.
Jæja klukkan er að nálgast þrjú og ég þarf að byrja á ritgerð..
Annars virðast allir þekkja littla Ísland í kreppunni og evran étur upp námsláns krónurnar mínar!BEEEEEEEP.
Við Ilías erum ofsalega glöð með lífið og tilveruna og pabbi ætlar í megrun.
Ég elska sushi og ég fer að sjá um littlu Nikitu næstu mánuði sem er fimm mánaða og finnst bara eðlilegt að láta henda sér upp í loft í tíma og ótíma og sofna hangandi í barnarólu.
Ég sendi alla mína ást og gleði til ykkar sem lesa og vona að þið komið eh að heimsækja mig.
Respectus.
4 Comments:
Hæ elskan mín, ohh hvað ég er glöð að þú ert byrjuð að blogga aftur !!! Ég sakna þín rugl mikið kona góð og langar að leika við þig og Maríu skemmtilegu. Hafðu það sem allra allra best og skilaðu kveðju til Iliasar frá mér og Ragnari. Ást til þín!
Mikið er ég ánægð að þú ert byrjuð að blogga á ný! Ég bíð alltaf spennt eftir nýjum færlsum, þetta er eins og að lesa skemmtilega bók, þú lifir í svo skemmtilegum ævintýraheimi :)
Það var æðislegt að hitta þig um daginn og ég lifi enn á minningunni!
Vonandi einn góðan veðurdag næ ég að heimsækja þig til Grikklands girnilega...
Risastórt knús frá Köge
Álfhildur hér
Vá hvað við vorum duglegar að hafa samband í sumar Anna Birta!!! Þetta er til háborinnar skammar... Ég hef reyndar unnið eins og skepna uppá síkastið og ætla að halda því eitthvað áfram, er ekki um að gera að kenna því bara um sambandsleysi?
Við erum vangefnar
Gaman að lesa bloggið þitt elskan og hafðu það gott :) er enn með sama emailið if the mood strikes you ;) sendi þér eflaust línu við tækifæri þar sem ég er meira í tölvunni en eðlilegum mannlegum samskiptum greinilega
ÉG er sammála Rakel, þegar ég les bloggið þitt fæ ég gott í hjartað því þau eru svo falleg og góð, og ævintýri líkust! hafðu það gott, þú ert á réttri hilufallega kona
með bestu Kveðju frá firðinum sem er búinn til úr ís Tinna
Post a Comment
Subscribe to Post Comments [Atom]
<< Home